miðvikudagur, 10. september 2008

Grænland 2002

Á tímabilinu 26. september til 3. október dvaldist ég meðal Inúíta í smáþorpinu Kulusuk á austurströnd Grænlands. Var sú dvöl hluti af námskeiði sem ég tók í BA náminu í mannfræði.

Ferðin var frábær í alla staði og sérstaklega skemmtilegt að kynnast svona ólíkum lifnaðarháttum. Það eru til að mynda eru engin vatnsklósett né rennandi vatn í húsum svo við þurftum reglulega að rogast út úr húsi með bláa tunnu og fylla hana í hverfiskrananum. Vikulega kom svo klósettbílinn sem tæmdi salernin, og hafði sami starfsmaður einnig þann starfa að tæma ruslatunnur vikulega.

Af því sem á daga mína dreif í Kulusuk var m.a. grænlenskur trommudans, grænlenskt dansi-mik, grænlensk messa (smjög spes), ísjakar og aftur ísjakar, fárviðri, blíðviðri, hvalaskoðun og hvalveiðar (næstum), ganga á Grænlandsjökul, selverkun, hike um grýtta náttúru Kulusuk, spilamennska, hundar og aftur hundar og látinn hvolpur undir húsinu okkar. Ég hef engan tíma til að skýra þetta betur en það er aldrei að vita nema ég komi með ferðasöguna, svo framarlega sem ég man hvað gerðist.

Smá mannfræðileg innsýn sem mér veittist í kringum ferðina: Immaqa er orð á grænlenskri tungu sem innfæddir nota mikið í daglegu tali. Það þýðir kannski/ef til vill og á að vera vísun í það að Inúítar eru nær algjörlega háðir náttúrunni, þ.e. veðri og vindáttum og því oft erfitt að plana viðburði sökum þessa. Ég vildi að ég hefði vitað af þessu áður en ferðin hófst því þá hefði ég lagt eyrun við og reynt að höggva eftir þessu orði. Það er þó spurning hvort það hefði eitthvað hjálpað því í raun fannst mér tungumál þeirra það óskiljanlegt að ég greindi ekki hvenært eitt orð endaði og það næsta byrjaði, þetta var svona ein heild í mínum eyrum.

Hér á eftir koma minningarbrot úr ferðinni, eins og sjá má fer þeim snarfækkandi og minnkandi eftir því sem á dvölina lengist!

26. september - Flogið til Grænlands
Fyrsti dagurinn fór í að koma sér fyrir, komast að því að eina búðin á svæðinu var lokuð vegna vörutalningar og vera þar af leiðandi mjög svangur. Um kvöldið kom Jói (kennarinn okkar úti) með frosin grálúðuflök, pakkahrísgrjón og pakkapasta í matinn. Við gerðum okkar besta til að gera þetta ætilegt en mér fannst grálúðan í feitari lagi og sleppti henni því.












27. september
Þessa fyrstu nótt átti ég erfitt með svefn og var því fyrst á fætur strax og fór að birta af degi. Lísa bættist fljótlega í hópinn og við ákváðum að taka okkur göngutúr um þorpið og leyfa skálafélögum okkar að sofa í friði. Þegar við sneru til baka úr frískandi göngutúr voru allir komnir á fætur og þá var arkað yfir í kaupfélagið og verslað inn fyrir helgina. Þar sem Elva átti afmæli var splæst í köku og afmæliskerti og um kvöldið elduðu sænsku húsfélagar okkar sænskar pönnukökur sem bornar voru fram með jarðarberjasultu (jordgubb) og vanilluís.

Við þefuðum líka uppi sturtuhúsið en í Kulusuk, sem er 350 manna þorp, eru fjórar sturtur í servings huset og ein í samfundshuset. Síðar um kvöldið fórum við síðan í heimsókn til Anda trommudansara sem var mjög skemmtilegt og skelltum okkur á dansi-mik sem var haldið í félagsheimilinu. Þar voru allir á snepplunum og þar sem lítið gaman er af því vorum við komin snemma heim.









28. september
Ég man ekki í fljótu bragði hvað við gerðum á laugardeginum.





 
29. september - Messa
Sunnudagurinn byrjaði með hamagangi því nokkrir veiðimannanna voru á spíttbátunum í firðinum með hval í sigtinu. Við misstum af því hvort þeir hefðu náð honum eða ekki því messan var að byrja á sama tíma og þetta fór fram og af henni vildum við ekki missa. Þetta er án efa sérkennilegasta messa sem ég hef setið þar sem ég skildi ekki orð í tungumálinu en þrátt fyrir það sátum við þarna öll mjög prúð og stillt og gerðum okkar besta til að syngja með sálmunum.


































(Ferðasaga unnin yfir langt tímabil: 2002, 2008 og lokahnykkurinn kom 10. apríl 2012)