þriðjudagur, 7. ágúst 2012

Sweat lodge

Hey kanína!

Untitled


Með gleraugun


Með gleraugun

Untitled

Í gær var það sweat, takk fyrir. Ég hef einu sinni áður farið í sweat og fannst það ferlega erfitt og því kveið ég því svolítið að fara aftur. Hins vegar hafði ég sterklega á tilfinningunni að þetta skiptið yrði öðruvísi enda var um sweat að ræða hjá Nonna og Heiðari að þessu sinni.

Við fórum nokkur saman upp í Elliðaárdal í fallega veðrinu í gær. Fengum lituð gleraugu á nefið sem litaþerapíu og klöppuðum eyrnaslapa sem var að forvitnast í kringum okkur. Fylgdumst með eldinum eflast og ég fékk að vita að ég væri gull, hingað send til að vera góð við ykkur hin. Ég reyni.

Fyrir þá sem ekki vita hvað sweat lodge er þá er um að ræða lokað og dimmt tjald sem hitað er upp með steinum beint úr eldinum. Steinarnir eru fyrir miðju tjaldsins og er setið hringinn í kringum þá á sundfötum og svitnað og sungið/kyrjað. Þetta er heitt, heitt, heitt og ansi mikil þrekraun á köflum að halda sér innandyra. Hugurinn reynir að sannfæra mann um að nú geti maður ekki meira og fleira í þá veru. Þannig var það allavega í fyrsta sweatinu mínu. Þetta sweat fór hins vegar mjög mildum höndum um mig og það var ekki fyrr en í fjórðu umferð sem dvölin inni í hitanum fór að taka á. Fimmta og síðasta umferðin var síðan sú allra erfiðasta enda dúndraði Heiðar einum 18 eða 20 vatnsausum á steinana svo úr varð vellandi hiti sem umvafði mann.

Það sem meðal annars stuðlaði að því að þetta sweat var auðveldara á allan hátt en hitt er stærð tjaldsins sem gerði það að verkum að maður gat lagst á magann á milli umferða og kælt lifrina á svalandi jörðinni. Þá fengum við klúta til að bleyta og kreista úr vatn yfir okkur til kælingar og nóg af vatni með blómadropum til að drekka. Nonni og Heiðar gáfu okkur líka góð ráð um hvernig best væri að þrauka sweatið og sögðu auk þess svo skemmtilegar sögur að tíminn leið hraðar og allt var auðveldara en ég hefði getað ímyndað mér. Ekki spilltu kraftmiklar jurtirnar fyrir sem þeir setja á steinana og droparnir sem þeir setja í vatnið sem fer á steinana, ilmgufur sem ná niður í lungnapípur. Á milli umferða spjölluðum við sem í sweatið vorum mætt saman og snerust umræðurnar um allt milli himins og jarðar, allt frá tali um Ólympíuleikana yfir um heimspekilegar vangaveltur um núið, sem er víst snúið því það er aldrei búið.

Eftir seinustu umferðina stauluðumst við síðan öll út um lágan og þröngan útgang tjaldsins, eins og nýburar að koma úr móðurkviði, moldug, blaut, sveitt og rauð. Lögðumst í grasið og köstuðum mæðunni. Þegar ég stóð upp fattaði ég að ég hafði verið að velta mér upp úr kanínuskít. Kaus að líta svo á að það gerði húðinni bara gott. Skoluðum af okkur í heitum fiskikörum eftir að hafa dempt  yfir okkur heilli fötu af köldu vatni. Frískandi!

Fórum síðan inn í smoothie, karrýsúpu og brauð, popp og lakkrís. Nonni spáði fyrir okkur og við spjölluðum svolítið saman eða þangað til allir voru farnir að ýmist geispa eða dotta, þá buðum við góða nótt og héldum heim á leið.

Hér er það sem Nonni las úr teningunum sem ég kastaði:
* vera ákveðin, berja í borðið, já bara vera eins og kanínan: ákveðin og blíð
* skapa mína eigin afþreyingu
* andarnir eru með mér og ég á að muna að tala við þá
* taka eftir draumunum mínum
* hleypa einhverju  nýju inn í lífið
* litur: rauður

Nonni kvaddi hópinn með þessum snilldar frasa sem ég ætla að leggja á minnið: Þú þarft ekki að vera api til að vera í góðu skapi.

Mæli alveg með sweat lodge fyrir sem flesta!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl
Var að reyna að googla svett, því mig langar svo að prufa. Fann þá þessa færslu hjá þér, takk fyrir það :-) Veistu hvert ég get haft samband til að komast í þetta?
Kveðja, Erna
ernahafnes@gmail.com

ásdís maría sagði...

Sæl Erna,
Gaman að heyra að þú hafir dottið inn á síðuna, vonandi að færslan hafi varpaði einhverju ljósi á fyrirbærið sweat lodge. Mæli alveg með þessari upplifun :)

Þú finnur Nonna í símaskránni eða ja.is undir Nonni Ragnarsson. Hann og Heiðar halda þessi sweat upp í Elliðaárdal. Það er bara að bjalla og fá frekari upplýsingar um sweatið.

Kær kveðja,
Ásdís