föstudagur, 22. nóvember 2013

New York ostaterta

New York ostaterta

Oh my, þessi ostaterta er dásamleg! Ég hef sjaldan verið eins stolt af köku sem hefur komið út úr ofninum mínum. Há og reisuleg, áferðafalleg og mjúk, sæt með góðum keim af sítrónu. Mmm...
Eins og þær gerast bestar á góðum veitingastöðum.

Hún er líka þ-u-u-u-n-g í maga svo það er kannski vissara að plana hana ekki sem desert eftir heavy steik með rjómasósu! Ég bakaði þessa tertu þegar pabbi og Hulda komu í heimsókn og við vorum alla helgina og lengur að japla á henni. Undir lokin var borðhaldið farið að minna á Monty Python: Bara pínkuponsu myntulauf herra minn... og svo *BÚMM*.

Þessi uppskrift kemur frá Stephanie sem er með síðuna Joy of Baking.

Nokkur tips frá Stephanie:
- Tertuna þarf að baka daginn áður svo hún nái að kólna og taka sig.
- Til að koma í veg fyrir að yfirborð kökunnar rofni við bakstur leggur Stephanie til að maður hræri deigið ekki of mikið, sérstaklega þegar maður hrærir saman sykurinn og rjómaostinn. Þetta er til að koma í veg fyrir að loft gangi saman við deigið.
- Annað ráð til að koma í veg fyrir að yfirborð kökunnar rofni er að sjóða vatn, hella því í eldfast mót og stinga svo mótinu inn í heitan ofninn rétt áður en kakan fer inn. Þannig fær kakan góðan raka á meðan hún bakast. Ég hef gert þetta bæði við þessa ostaköku og við graskersostakökuna og í bæði skiptin komu kökunar heilar út úr ofninum.
- Í þriðja lagi er mikilvægt að ofbaka ekki ostakökuna. Hún er tilbúin þegar hún er orðin stinn en miðjan er áfram laus í sér.
- Að lokum er mikilvægt að smyrja formið vel því þegar kakan kólnar losa kantarnir sig frá forminu og ef formið er ekki vel smurt getur það rifið yfirborðið.

HVAÐ
Í botninn:
200 g Graham eða Digestive kex, mulið
50 g sykur
115 g smjör, bráðið

Í fyllinguna:
900 g rjómaostur (feitur), við stofuhita
200 g sykur
35 g hveiti
5 stór egg, við stofuhita
80 ml rjómi
1 msk sítrónubörkur (af lífrænni sítrónu)
1 tsk vanilludropar

Í kremið:
240 ml sýrður rjómi (feitur), við stofuhita
30 g sykur
0,5 tsk vanilludropar

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 180°C.
2. Smyrjið 23 sm form með lausum botni. Það getur verið ráð að leggja formið í stærra form svo að allur leki úr forminu drjúpi í formið en ekki á botn ofnsins.
3. Fyrir botninn: Myljið kexið og blandið því svo saman við sykurinn og bráðið smjörið. Þrýstið kexmulningnum í formið og mótið um 2-3 sm háan kant upp með hliðum formsins. Plastið formið og setjið inní ísskáp.
4. Næst er það fyllingin. Setjið rjómaostinn, sykur og hveiti í stóra skál. Hrærið á miðlungshraða þar til osturinn er orðinn mjúkur (u.þ.b. 2 mín.).
5. Bætið við eggjunum einu í einu og hrærið vel í á milli (u.þ.b. 30 sek.). Skafið neðan úr hliðum skálarinnar.
6. Bætið útí rjómanum, sítrónuberkinum og vanillunni og hrærið þar til allt hefur blandast saman.
7. Takið botninn út úr ísskápnum og hellið fyllingunni í.
8. Setjið heitt vatn í eldfast mót og leggið í botninn á ofninum, til að tryggja tertunni raka í bakstrinum.
9. Setjið formið með ostatertunni inní ofn. Bakið í 15 mín. og lækkið þá hitann niður í 120°C og bakið áfram í 60-90 mín. eða þangað til tertan er stinn en miðjan er enn laus í sér. Skekið formið aðeins til að sjá hvort miðjan hristist. Hjá mér reyndist nóg að baka tertuna í 75 mín. í heildina því ofninn er frekar öflugur.
10. Á meðan tertan er í ofninum er ráð að útbúa kremið sem fer ofaná. Hrærið saman sýrða rjómanum, sykri og vanillu.
11. Takið tertuna úr ofninum þegar hún er tilbúin og smyrjið kreminu ofaná. Aftur inní ofn og bakið áfram í 15 mín.
12. Takið tertuna úr ofninum. Rennið hnífi eftir köntum formsins til að losa ostatertuna frá forminu. Leyfið tertunni að kólna niður í herbergishita áður en hún er sett inn í ísskáp. Plastið og setjið inní ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nótt.

Þessa tertu er æðislegt að bera fram með ferskum berjum.

New York ostaterta

Engin ummæli: