föstudagur, 7. febrúar 2014

Linsutaco í pítubrauði

Linsutaco
 
Hér kemur uppskrift sem er búin að halda í okkur lífinu í vetur.
 
Ok, kannski svolitlar ýkjur hér á ferð. 'Halda í okkur lífinu'... það væri kannski réttara að lýsa uppskriftinni sem uppáhaldi vetrarins.
 
Þegar við bjuggum á Lovund kynntumst við því hvernig Norðmenn borða taco. Í pítubrauðum! Það þótti okkur sérkennilegt, en eftir að hafa prófað það erum við forfallnar pítubrauðsætur.
 
Hér áður fyrr bjuggum við alltaf til tacoið úr sveppamassa frá Quorn en síðan fórum við að lenda í vandræðum með að verða okkur út um hann. Þegar sveppamassinn góði hafði ekki fengist í búðum í fleiri vikur tók mín til sinna ráða, bretti upp ermar og henti sér af fullum krafti í að búa til massa úr linsubaunum sem gæti komið í staðinn.
 
Og viti menn, það gekk! Síðan þá höfum við ekki keypt sveppamassann.
 
HVAÐ
200 g brúnar linsur, þurrar (litlar, brúnar linsur með mattri áferð)
1 stór sveppur (50 g), saxaður
1 lítill laukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, marðir
2 tsk papríkuduft
smá season all
ca 1 bolli vatn,
1 pakki Taco krydd úr pakka
 
Meðlæti: Rifinn ostur, sýrður rjómi, fínt söxuð gúrka, maísbaunir, avókadó í bitum, taco sósa.
 
HVERNIG
1. Leggið linsurnar í bleyti í 2-6 tíma. Þetta styttir eldunartíma og vatnsmagn í uppskrift miðar við að linsur hafi verið lagðar í bleyti. Skolið linsurnar síðan vel og tínið frá þær sem eru ljótar að sjá.
2. Steikið laukinn á pönnu í 4-6 mín. Bætið þá við hvítlauknum og steikið áfram í 2-3 mín.
3. Bætið út í sveppnum/sveppunum og hrærið vel saman við laukinn.
4. Setjið út á papríkuduft og season all, blandið og leyfið að steikjast áfram í 2 mín.
5. Hellið sem samsvarar einum bolla af vatni út á linsurnar, þangað til rétt flýtur yfir þær. Látið suðu koma upp undir loki, lækkið svo á meðalhita og sjóðið undir loki í 20 mín.
6. Smakkið linsurnar til að 20 mín. liðnum. Ef þær eru mjúkar eru þær tilbúnar. Síðasta skrefið er að bæta taco kryddinu út í og leyfa því að ganga inn í linsurnar í 10 mín. á vægum hita. Ef linsurnar eru þurrar er ráð að bæta 1-2 dl af vatni með kryddinu og hræra vel saman.
7. Hitið pítur í ofninum. Raðið svo öllu sem á að fara ofan í á disk, hrærið vel saman og skellið ofan í pítuna.
 
Ekta laugardags!
 
Linsutaco
 
Linsutaco
 
Linsutaco
 
Linsutaco
 
Laugardagstaco

Engin ummæli: